„Markmið Listahátíðar er að efla menningar- og listalíf á Íslandi, almenningi til heilla. Hlutverk Listahátíðar er að skipuleggja og standa að listahátíðum í Reykjavík á sviði tónlistar og söngs, leik- og danslistar, bókmennta, myndlistar, hönnunar og fleiri listgreina annað hvert ár. Hafa skal metnaðarfulla listsköpun að leiðarljósi og kappkosta að tefla fram framúrskarandi listafólki af hinu alþjóðlega sviði og því besta sem býr í listmenningu þjóðarinnar. Sérstaka áherslu ber að leggja á nýsköpun og aðra þá þætti íslenskrar menningar sem skapa henni sérstöðu í samfélagi þjóðanna.“
(Skipulagsskrá Listahátíðar í Reykajvík, 2. gr.)
Í síkviku menningarlandslagi er Listahátíð í Reykjavík í einstakri aðstöðu til þess að vera aflvaki nýsköpunar og samstarfs í íslensku listalífi. Rætur hennar liggja djúpt og teygja sig víða, jafnt innan lands sem utan. Hátíðin er gátt og vettvangur fyrir listsköpun í hæsta gæðaflokki frá öllum heimshornum en hún á líka í kraftmiklu og lifandi sambandi við almenning og leitast við að virkja sem flesta til þátttöku. Menning og listir eru ekki forréttindi fárra heldur réttindi allra.
Hátíðin er vettvangur samtals og samstarfs þvert á listgreinar og þvert á landamæri. Hún leitast við að koma stöðugt á óvart, endurspegla fjölbreytileika mannlífsins, vera sýnileg í borginni og teygja sig jafnframt út fyrir borgarmörkin.
Við verkefnaval er faglegur metnaður, kjarkur og stórhugur hafður að leiðarljósi og ætíð leitast við að viðburðir hafi slagkraft og gildi fyrir íslenskt listalíf og samfélag. Stuðst er við skýrt þema fyrir hverja hátíð sem talar beint inn í samtímann og skapar merkingarbært samhengi fyrir listafólk sem að hátíðinni kemur, sem og gesti hennar.
Listræn sýn Listahátíðar í Reykjavík er leiðarljós og undirstaða allra þriggja kafla stefnunnar: Áhorfendastefnu, Kynningarstefnu og Stefnu innra starfs.
Meginmarkmið:
Að Listahátíð í Reykjavík nái til fjölbreytts hóps áhorfenda og eigi í opnu og kraftmiklu samtali við samfélagið.
Listahátíð í Reykjavík er ein stærsta listahátíð landsins, með rekstrarfé bæði frá ríki og borg og því er mikilvægt að hún sé aðgengileg sem fjölbreyttustum hópi áhorfenda. Áhersla er lögð á að ná til ólíkra aldurshópa, að hátíðin teygi sig út fyrir miðborgina og að aðgengi jaðarsettra þjóðfélagshópa að viðburðum Listahátíðar verði tryggt með ýmsum hætti.
Unnið verður markvisst að samstarfi við ferðaþjónustuna til að ná til þeirra ferðamanna sem eiga leið um Reykjavík á meðan á hátíðinni stendur.
Meðal aðgerða:
Að kynna hátíðina á markvissan hátt með góðum fyrirvara og með fjölbreyttan áhorfendahóp í huga.
Áhorfendastefna og kynningarstefna standa þétt saman og eru samofnar listrænni sýn hátíðarinnar. Til að ná megi til fjölbreyttari hóps áhorfenda þarf að gera kynningarefni þannig úr garði að það höfði til ólíkra hópa. Einfalda þarf aðgengi að miðasölu hátíðarinnar og gera hátíðina sýnilegri í borginni á meðan á henni varir.
Meðal aðgerða:
Kynna nokkra helstu viðburði að minnsta kosti 6 mánuðum fyrir hátíð og heildardagskrá eigi síðar en 3 mánuðum fyrir hátíð.
Kynna staka viðburði jafnt og þétt yfir veturinn í aðdraganda hátíðar.
Skilgreina markhópa fyrir alla viðburði og miða kynningu við þá.
Varða leiðina í kynningarefni og á heimasíðu hátíðarinnar þannig að auðvelt sé að sjá hvaða viðburðir henta t.d. fjölskyldum, eru ókeypis, þarfnast ekki tungumálaskilnings o.s.frv.
Nýta samfélagsmiðla markvisst í markaðssetningu hátíðarinnar.
Tryggja að hægt verði að nálgast miða á alla viðburði beint af heimasíðu hátíðarinnar.
Bæta upplýsingar á heimasíðu fyrir erlenda gesti.
Eiga gott samstarf við ferðaþjónustuaðila og dreifa kynningarefni á ensku í gegnum þá.
Huga að sýnileika hátíðarinnar í borginni jafnt í miðborg sem og í úthverfum hennar með áhugaverðu kynningarefni og óvæntum uppákomum.
Nýta klúbb Listahátíðar sem vettvang til að miðla upplýsingum um dagskrá hátíðarinnar á lifandi hátt
Að auka fjármagn sem nýtist beint í dagskrá og viðburði Listahátíðar í Reykjavík ásamt því að tryggja jafnvægi í rekstri.
Stefna innra starfs snýst um það að styrkja rekstrarlegar grunnstoðir hátíðarinnar. Ábyrg fjármálastjórnun og gagnsæi í rekstri eru lykilatriði í stefnu innra starfs. Tryggja skal stöðugleika í rekstri Listahátíðar með yfirvegaðri ákvarðanatöku, samningagerð, innkaupum og mannaráðningum. Gripið verður til aðgerða til að auka bæði tekjur af miðasölu og fjármagn frá styrktaraðilum sem renna mun beint í dagskrárgerð hátíðarinnar.
Meðal aðgerða:
Tryggja markvissa áætlanagerð, bæði til lengri tíma og fyrir einstök verkefni.
Setja á fót reglubundna endurskoðun á áætlunum með hagræðingu að leiðarljósi.
Taka þátt í samstarfsverkefnum sem falla að listrænni stefnu hátíðarinnar og geta m.a. laðað að sér erlent styrkfé.
Leita til fyrirtækja eftir styrkjum.
Tryggja greitt aðgengi komandi stjórnenda og starfsfólks Listahátíðar að sögulegum gögnum um rekstur og starfsemi hátíðarinnar.
Leita leiða til að koma á hvatakerfi fyrir þá sem kaupa miða á fleiri en einn viðburð hátíðarinnar og/eða kaupa miða með löngum fyrirvara.
Ráða starfsfólk sem setur átt samleið með Listahátíð til lengri tíma þó ekki sé hægt að bjóða full stöðugildi nema tímabundið.
Gera lengri samninga við birgja, samstarfsaðila og styrktaraðila (2018-2020) til að ná fram hagstæðari samningum.