Til baka
Til baka
#reykjavikartsfestival2018 #listahatid2018
8
maí

Valkyrjan eftir Wagner slær upptakt að Listahátíð í Reykjavík 2020

Í tilefni af stórafmælum Sinfóníuhljómsveitar Íslands (70 ára), Íslensku óperunnar (40 ára) og Listahátíðar í Reykjavík (50 ára) munu þessi flaggskip íslenskra listastofnanna blása til sameiginlegrar afmælisveislu og setja upp óperu Wagners; Valkyrjan eða Die Walküre vorið 2020. Uppfærslan er samstarfsverkefni þessara aðila og verður flutt 27. og 29. maí 2020 í Eldborg í Hörpu.

Hljómsveitinni stjórnar Alexander Vedernikov sem í fyrra tók við stöðu aðalstjórnanda við Konunglegu dönsku óperuna í Kaupmannahöfn. Leikstjórinn, Julia Burbach, er fastráðin við Covent Garden í Lundúnum; vídeólistamaðurinn Tal Rosner hefur meðal annars unnið til BAFTA-verðlauna fyrir list sína, en hann hefur m.a. starfað við National Theatre í Lundúnum og Lincoln Center í New York.

Nokkrir heimsþekktir söngvarar fara með stærstu hlutverkin og má þar nefna Christopher Ventris sem syngur Siegmund, Claire Rutter sem syngur Sieglinde og Frode Olsen sem verður í hlutverki Hundings. Ólafur Kjartan Sigurðarson mun syngja hlutverk Wotans í fyrsta sinn í þessari sýningu. Jamie Barton syngur hlutverk Fricku og Christine Goerke syngur Brünnhilde. Aðrar valkyrjur verða túlkaðar af íslenskum söngkonum:
Helmvige: Lilja Guðmundsdóttir
Gerhilde: Sigrún Pálmadóttir
Ortlinde: Margrét Hrafnsdóttir
Waltraute: Sigríður Ósk Kristjánsdóttir
Sigerune: Agnes Thorsteins
Roβweiβe: Nathalía Druzin Halldórsdóttir
Grimgerde: Hildigunnur Einarsdóttir
Schwertleite: Svanhildur Pálmadóttir

Þetta verður í fyrsta sinn sem Valkyrjan er flutt í fullri lengd á Íslandi og um leið er þetta fyrsta ópera Niflungahringsins sem flutt verður óstytt á Íslandi. Flutningurinn markar því tímamót í sögu óperuflutnings á Íslandi og hafa áformin þegar vakið mikla athygli bæði innan lands og utan.

Fyrsta óperan eftir Wagner sem flutt var á Íslandi í heilu lagi var Hollendingurinn fljúgandi en hún var sýnd í maí 2002 og var samstarfsverkefni Íslensku óperunnar, Sinfóníuhljómsveitar Íslands, Listahátíðar í Reykjavík og Þjóðleikhússins. Áður var Niflungahringurinn fluttur í styttri útgáfu á Listahátíð árið 1994 og var þá um að ræða samstarfsverkefni Sinfóníuhljómsveitarinnar, Listahátíðar í Reykjavík, Þjóðleikhússins, Íslensku óperunnar og Wagner-hátíðarinnar í Bayreuth.